
Nú heitum við Kubbabúðin
-
LEGObúðin sem starfrækt hefur verið í Smáralind frá 2016 heitir nú Kubbabúðin.
-
Hér er því eingöngu um nýtt nafn á versluninni að ræða en engar aðrar breytingar verða á rekstri hennar, ennþá sama góða þjónustan og mesta úrval LEGO á Íslandi.
-
Kubbabúðin er sérverslun með skapandi leikföngin frá LEGO.
LEGObúðin sem A4, umboðsaðili Lego á Íslandi, hefur rekið í Smáralind frá árinu 2016 hefur skipt um nafn og heitir nú Kubbabúðin. Nafnabreytingin er tilkomin vegna nýrra áherslna hjá LEGO en einungis verslanir í eigu LEGO mega bera nafn vörumerkisins. Hér er því eingöngu um nýtt nafn á versluninni að ræða en engar aðrar breytingar verða á rekstri hennar.
„Við höfum verið umboðsaðilar LEGO frá árinu 2018 og höfum átt við fyrirtækið gott og árangursríkt samstarf sem aldrei hefur borið skugga á. Þessi nafnabreyting er liður í ákveðinni þróun á því samstarfi sem opnar m.a. nýjar og skemmtilegar leiðir fyrir okkur í markaðssetningu þessa frábæra vörumerkis. Við höldum því ótrauð áfram með verslunina undir þessu nýja, alíslenska nafni og stefnum á áframhaldandi vöxt LEGO á Íslandi í góðu samstarfi við okkar frábæru endursöluaðila,“ segir Egill Þór Sigurðsson forstjóri A4.
Leikföngin frá LEGO hafa í áratugi verið eftirlæti barna á öllum aldri, og margra fullorðinna reyndar líka. Rétt eins og Egill sér Per Overgaard frá LEGO fyrir sér áframhaldandi gott samstarf á næstu árum: „LEGO er eitt þekktasta og dáðasta vörumerki heims. Því er lykilatriði að við eigum sterka samstarfsaðila sem skilja sérstöðu vörumerkisins og veita því þann stuðning sem nauðsynlegur er. A4 hefur lengi verið slíkur samstarfsaðili og við hlökkum til að vinna áfram með fyrirtækinu að uppbyggingu LEGO á Íslandi.“
Nafnabreytingin og þróun nýja vörumerkisins hefur verið unnin í góðu samstarfi við LEGO undanfarna mánuði, enda mikilvægt að vanda vinnuna fyrir jafn vinsælt vörumerki og LEGO er. Til marks um það má til gamans geta þess að LEGO kubbar í Kubbabúðinni eru mun fleiri en íbúar þessa lands.